Ásbjörn Friðriksson | "Bæði liðin hafa spilað nokkuð vel eftir áramót"
Það eru tveir dagar í fyrsta leik hjá Ásbirni og félögum, hvernig líst leikmanninum á einvígið sem framundan er?
"Mér líst mjög vel á þetta einvígi. Bæði liðin hafa spilað nokkuð vel eftir áramót og því reikna ég með hörkueinvígi," sagði Ásbjörn.
Hvað leikmenn í liði Aftureldingar ber að varast?
"Afturelding er með góða leikmenn í flest öllum stöðum og mikla breidd í leikmannahópnum sínum. Ef ég á að taka einhverja út myndi ég nefna Pinnonen og Árna Braga sem leikmenn við þurfum að stoppa. Mikið af þeirra sóknarleik fer í gegnum Pinnonen og Árni Bragi hefur verið að skora mikið í vetur. Svo væri náttúrulega gott fyrir okkur ef að við myndum sleppa því að skjóta mikið í markmenn Aftureldingar sem hafa verið öflugir í vetur," bætti Ásbjörn við.
Telur Ási að liðið geti farið alla leið í úrslitaeinvígið miðað við spilamennskuna seinni hluta móts?
"Já, klárlega ef við miðum við spilamennskuna seinni hluta tímabilsins. Þar sýndum við að með öguðum og góðum leik getum við unnið öll lið deildarinnar. En núna erum við bara að hugsa um einvígið við Aftureldingu," sagði leikmaðurinn.
Er Ásbjörn orðinn 100% klár eftir smávægileg meiðsli í kálfa?
"Það kemur í ljós á æfingunum í dag og á morgun. Ég er búinn að vera í endurhæfingu og er hægt og rólega að færa mig inn á parketið," bætti hann við.
En er Ásbjörn með einhver skilaboð til stuðningsmanna FH að lokum?
"Ég vona að sem flestir FH-ingar fylgi okkur í úrslitakeppninni, bæði í heima- og útileiki. Það hefur nefnilega margoft sýnt sig að ykkar stuðningur hjálpar okkur leikmönnunum á vellinum. Áfram FH," sagði Ásbjörn að lokum við FH.is.