Aðal styrktaraðili FH er:

actavis_logo

Næsti leikur: 

Gummi Sævars: Sjö titlar á sjö árum er ekkert grín fyrir bakið

Guðmundur Sævarsson spilaði 239 leiki fyrir meistaraflokk FH og var afar vinsæll meðal stuðningsmanna FH þau tímabil sem hann spilaði með liðinu.

Guðmundur, eða Gummi eins og hann er oftast kallaður, spilaði iðulega sem hægri bakvörður og skilaði 28 mörkum sem er mögnuð tölfræði fyrir bakvörð.

„Það er bara frekar ljúft, það er líf eftir boltann þó margir haldi annað. Ég er fjölskyldumaður þ.a. maður snýst soldið í kringum börnin og þeirra tómstundir, síðan var tilbreyting þegar maður gat tekið sumarfrí með fjölskyldunni eins og venjulegt fólk," sagði Gummi um lífið eftir fótboltann.

„Minningarnar eru mjög margar en ef maður ætti að velja einhverja eina þá hlýtur það að vera Akureyri 2004, að taka þátt í að vinna fyrsta stóra titillinn fyrir uppeldisfélagið sitt var ógleymanlegt."

„Það er erfitt að nefna einhvern einn sem besta samherjann, það voru margir frábærir karakterar og leiðtogar í 2004 og 2005 liðunum þ.a. ég get ekki gert upp á milli."

Við báðum Gumma um að stilla upp besta liði sem hann hefur spilað með í FH og hér kemur það:
Ekki hægt að velja neitt annað en 4-3-3.

Mark: Daði Lár, frábær liðsfélagi og góður milli stanganna (hefði líka getað valið smiðinn Gunna Sig „the human wall“, hann kom ótrúlega sterkur inn þegar á þurfti).
Vinstri bakvörður: Freyr Bjarna, traustari varnarmann finnur þú ekki.
Miðverðir: Tommy og Sverrir, draumaparið.
Hægri bakvörður: Gummi Sævars, upp og niður.
Miðja: Heimir Guðjóns stjórnar leiknum, Björn Daníel, náttúrutalent, Ásgeir Gunnar tarfast box í box.
Hægri kantmaður: Jón Þorgrímur „maður fólksins“, kemur kannski einhverjum á óvart en við náðum mjög vel saman.
Framherji: Borgvardt, augljóst.
Vinstri: Tryggvi Guðmunds, gerði allt til að vinna og gat klárað leiki, Emmi Hall var frábær 2004, það átti enginn bakvörður séns í hann, fínt að vera með honum í liði, hefði mögulega geta valið hann
Varamenn: Atli Viðar, Baldur Bett, Atli Guðna, Davíð Viðars, Matti Vill, Auðun Helga og Simon Karkov, síðan er ég pottþétt að gleyma einhverjum meisturum.

Við spurðum Gumma út í FH-liðið í dag og hvernig hann sæi það frá augum stuðningsmanns.

„FH-liðið er mjög rútínerarð og allir þekkja sín hlutverk mjög vel, liðið er mjög gott varnarlega og gefur fá færi á sér og þannig er auðveldara að vinna fótboltaleiki, þó að liðið sé ekki endilega að spila vel eða fallegasta boltann virðist liðið alltaf getað kreist eitthvað úr leikjunum sem þegar upp er staðið skiptir öllu máli."

„Sóknarlega hefur liðið marga möguleika en Heimir hefur kannski ekki alveg fundið sína bestu uppstillingu en ég vona að hann finni réttu blönduna núna á lokasprettinum og menn springi út og klári þetta með stæl."

Við biðum Gumma um að spá fyrir leikinn að lokum.

„Spái hörkuleik sem FH vinnur 2-1, það er mjög mikið undir og ef FH vinnur þá eru þeir komnir á skrið og þá er enginn að fara að stoppa þá, svipað og í fyrra, vonandi verður Atli Guðna kominn í stand því hann er mjög mikilvægur fyrir sóknarleik liðsins."

„Ef þeir hins vegar tapa sem við skulum ekki tala of mikið um þá mun þetta verða barátta fram í síðustu umferð – það er búið að vera smá deyfð í áhorfendum eftir EM en ég held að fólk komi vel peppað og það verði allt vitlaust á pöllunum."

FHingar.net setti á Twitter á dögunum að fólk sem notaði myllumerkið #AskGummi gæti spurt Gumma að öllu sem þau vildu. Hér koma nokkrar spurningar frá stuðningsmönnum:

Andri Magnússon: Hver var mikilvægasti leikmaðurinn í 2004 FH liðinu? #AskGummi
Gefum höfðingjanum big Tommy Nielsen þetta, með hann í toppformi var FH-liðið ekkert að fara að tapa mörgum leikjum.

Brynjar Benediktsson: Er þér ekkert illt í bakinu eftir að hafa lyft svona mörgum titlum? #AskGummi
Mögulega kannski ástæðan fyrir því að ég er ennþá hálf-tæpur í bakinu, 7 titlar á 7 árum er ekkert grín.

Garðar Ingi Leifsson: Ef þú þyrftir að velja sætasta sigurinn á ferlinum, hver yrði fyrir valinu? #AskGummi Akureyri 2004 var mjög sérstakur og einstakur í sögu Fimleikafélagsins, Árbærinn 2008 var líka mjög sætur og hvernig við unnum titilinn í síðasta leik, það var gaman að gulltryggja titilinn – síðan stendur sigurinn á móti Dunfermline í Skotlandi 2004 líka uppúr, þegar Tommy Nielsen tryggði sigurinn með höndinni á síðustu mínútunum.

Heiðar Ólafsson: Hvaða leikmaður í yngri flokkunum hjá FH hélstu að myndi ná lengst, en hætti svo fótbolta iðkun? #AskGummi Gullsmiðurinn og glókollurinn Ólafur Stefánsson (Óli Stef) var baneitraður og með töfra í fótunum, það hefði verið gaman að sjá hann halda áfram, það var mikið af fagmönnum í 78 árgangnum og unnum við allt sem hægt var að vinna í 5. og 6. flokki en það voru fáir sem skiluðu sér upp í meistaraflokk, líklega bara ég og Addi Vidd.

Magnús Stefánsson: Hverja myndiru velja með þér í reitarbolta? #AskGummi Tvíburana Arnar og Bjarka, gæði, síðan var veisla þegar þeir fóru að rífast – Sigurbjörn Hreiðarsson, til að rugla í mönnum – Alan Dyring, brandari að vera með honum í reit – Heimir Guðjóns, alltaf á tánum – Tryggvi Guðmunds, það verður einhver að hrauna yfir menn – Atli Viðar, mikið í klobbunum sem ég hef gaman af.

Andri Geir Gunnarsson: Er Freysi Bjarna jafn mikill kóngur og menn segja? Hef heyrt að hann sé schnillingur. #AskGummi Hann er einn mesti öðlingur sem ég þekki og mikill snillingur, myndi segja að hann væri KÓNGURINN.

Styrktaraðilar íþróttadeilda FH eru: