Hvað segja spekingarnir fyrir stórleikinn?
FH.is heldur áfram að hita upp fyrir stórleik FH og KR á mánudaginn í Pepsi-deild karla.
Við fengum tvo grjótharða FH-inga til þess að spá í spilin fyrir leikinn, en það eru þeir Tómas Leifsson og Jón Páll Pálmason.
Tómas Leifsson lék með FH upp alla yngri flokka, en hélt svo á önnur mið og spilaði með Fjölni, Fram og Selfoss. Tómas er sonur goðsagnarinnar og kennarans Leifs Helgasonar og bróðir Víðis Leifsonar. Í dag þjálfar Tómas 2. og 3. flokk kvenna í Fimleikafélaginu.
Tómas segir: Jæja þá mætir KR í krikann. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik. KR hefur ekki verið á neinni blússandi siglingu síðan Willum tók við en manni finnst vera meira sjálfstraust í liðinu og þeir eru að klára leiki sem þeir voru ekki að klára fyrr í sumar. Þeir lenda þó á vegg í þessum leik því ég held að FH liðið sé komið í gang. Við erum það massívt og reynslumikið lið að við eigum að vinna þennan leik.
Flottur leikur upp á Skaga sem skilaði þremur sannfærandi stigum og það hlýtur að gefa okkur mikið. Það verður gott að fá Emil Páls aftur inn og síðan er spennandi að sjá hvor Kaj Leo muni byrja leikinn. Mín spá er 2-0. Þórarinn Ingi skorar fyrsta markið og Kaj Leo klárar þetta svo fyrir okkur á 78. mínútu. Í kjölfarið verður I Walk on Water með Kaleo spilað í hátalarakerfinu (stal þessum frá Johnny Ragg).
Jón Páll Pálmason lék með FH á sínum yngri árum, en fór snemma út í þjálfun og hefur gert ófáa yngri flokka FH að Íslandsmeisturum. Hann hefur einnig þjálfað kvennalið Fylkis og karlalið Hattar, en í dag þjálfar hann kvennalið Klepp í efstu deild kvenna í Noregi og fylgist því með FH-liðinu úr fjarlægð þetta sumarið.
Jón Páll segir: 20. september 2003 var Willum Þór vinur minn að þjálfa KR. Það var líklega einn versti dagurinn á þjálfaraferlinum hjá Framsóknarmanninum rólega, en þó æsta! Willum Þór er toppmaður, en ég von að hann fari jafn pirraður heim á mánudagskvöld líkt og eftir þennan eftirminnilega haustdag 2003!
Hlutirnir hafa breyst töluvert síðan 2003. FH datt út úr Evrópu um daginn, féll úr leik í undanúrslitum í bikar í kjölfarið en hefur þó setið í efsta sæti deildarinnar í töluverðan tíma. Það er þó krísa í suðurbæ Hafnarfjarðar sé ég skv fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum kvarta og kveina margir mætir stuðningsmenn FH yfir stöðunni.
FH og Stjarnan eru að leggja af stað í baráttu um sigur í deildinni og sigur gegn KR yrði frábært veganesti inn í haustið sem skellur brátt á ykkur á Íslandi.
FH spilaði ágætlega á skaganum, færðu boltann hraðar og betur en í síðustu leikjum og Atla Viðari líkaði það bærilega. Nú reynir á að fólk mæti á völlinn, styðji liðið og við klárum þetta mót því Íslandsmótið í fótbolta er alltaf mikilvægasta fótboltamótið til að sigra á hverju ári – í heimsfótboltanum.
FH-kveðja,
JP
FH.is þakkar þessum heiðursmönnum fyrir aðstoðina og minnir fólk á þá heljarinnu dagskrá sem verður í Kaplakrika frá klukkan 18.00 á leikdag.