Íslandsmeistarar og úrslitaleikir framundan
Það er nóg að gera hjá yngri flokkum FH þessa dagana, en nú eru úrslitakeppnirnar að fara í gang og einhverjir flokkar hafa lokið sér af með Íslandsmeistaratitli.
Þriðji flokkur kvenna varð á dögunum Íslandsmeistari B-liða, en A-liðið í 3. flokki kvenna er komið í bikarúrslit og einnig í úrslitakeppni A-liða. Vilhjálmur Kári Haraldsson og Tómas Leifsson eru þjálfarar flokksins.
Fimmti flokkur karla D-lið varð einnig Íslandsmeistari á dögunum, en þeir unnu úrslitariðil sinn sem var spilaður á Iðavöllum í Keflavík. Davíð Örvar Ólafsson, Páll Árnason og Sam Tillen þjálfa fimmta flokk karla.
Á fimmtudaginn fer svo fram úrslitaleikurinn í fjórði flokki karla A-liða, en FH mætir þá Breiðabliki á iðagrænum aðalvelli okkar FH-inga klukkan 16:30. B og C-lið flokksins eru einnig komin í úrslitakeppni.
Leiki allra FH-liða út tímabilið má sjá hér, en listinn verður uppfærður þegar búið er að ákveða tímasetningar, til að mynda í úrslitakeppni 3. flokks kvenna.
Sannarlega frábær árangur hjá yngri flokkum FH og klárt að framtíðin er björt í Fimleikafélaginu!
Mynd: 3. flokkur kvenna B fagnar Íslandsmeistaratitli sínum.