Kveðja frá Aroni Pálmarssyni
Kæru FH-ingar,
Sendi mínar bestu nýars kveðjur til allra FH-inga.
Það gladdi mig mikið að landsleikirnir sem spilaðir verða hér heima í undirbúningi okkar fyrir EM verða á mínum heimavelli í Kaplakrika 6 og 7 janúar. Miðvikudaginn 6 janúar mun ég einnig ná þeim áfanga að spila minn 100 landsleik og er því enn ánægjulegra að ná að fagna því á heimavelli. Kaplakriki á sérstakan stað í hjarta mínu enda mitt annað heimili í 18 ár og ég hef ekki spilað leik þar síðan ég flutti til Kiel fyrir 7 árum síðan.
Það er fátt sem myndi gleðja mig meira heldur en stútfullur Kaplakriki af FH-ingum. Ég mun gefa mér góðan tíma eftir leik til að hitta unga og upprennandi FH-inga og gefa eiginhandaráritanir. Ég er fullur tilhlökkunar og mun gera mitt allra besta til að opna handboltaárið fyrir FH-ingum með góðri skemmtun og skjóta handboltaárinu í Krikanum í gang.
Það er svo ykkar að standa þétt við bakið á handboltanum í FH og koma honum aftur á þann stall sem hann á að vera, á toppnum og hvergi annars staðar.
FH á sér ríka sögu sem ég er stoltur af að tilheyra, ég hlakka til að eiga með ykkur skemmtilegt handboltakvöld í Krikanum 6 janúar.
Áfram FH og áfram Ísland
Bestu kveðjur, ykkar
Aron Pálmarsson