Margrét og Sigurjón Golfarar FH 2016
Margrét og Sigurjón Golfarar FH 2016
Hið árlega Golfmót FH var haldið s.l. föstudag, 2. september við algjörar kjöraðstæður á frábærum golfvelli Keilismanna á Hvaleyrinni.
Mótið á sér langa sögu en það var fyrst haldið árið 1981 undir forystu félaganna Ingvars Viktorssonar og Ragnars Jónssonar. Það hefur verið haldið árlega síðan þá og fór nú fram í 36. skipti sem gerir mótið að einu því langlífasta sem haldið er.
Þátttaka var mjög góð en alls luku 109 keppendur leik sem er með því mesta sem gerist í þessu móti.
Það var sérstaklega gaman að sjá hvað margar konur tóku þátt að þessu sinni, eða 21, sem er metþátttaka og umtalsvert meira en áður hefur verið. Vonandi verður framhald á því.
Óhætt er að segja að mótið hafi tekist í alla staði mjög vel og verið hið glæsilegasta. Bryddað var upp á þeirri nýjung að keypt voru FH-flögg á allar flatarstangir og setti það óneitanlega afar skemmtilegan svip á mótið.
Einnig var útbúinn sérstakur FH-matseðill sem vakti mikla lukku þátttakenda sem nýttu sér óspart kostaboð seðilsins. Brynju og hennar fólki í eldhúsinu færum við hér með þakkir fyrir hjálpina.
Þá skemmdi ekki fyrir að veðrið lék við keppendur allan tímann auk þess sem völlurinn skartaði sínu allra fegursta. Er það mál manna að sjaldan eða aldrei hafi Hvaleyrarvöllurinn verið í svona góðu ástandi og líktu menn vellinum við það besta sem sést erlendis. Ólafi Þór framkvæmdastjóra, Bjarna vallarstjóra og þeirra fólki færum við okkar bestu þakkir fyrir hreint magnaðan golfvöll og aðstoð við uppsetningu mótsins.
Verðlaun voru sérlega glæsileg þetta árið og skal þetta tækifæri notað til að þakka öllum styrktaraðilum okkar kærlega fyrir þeirra þátt í að gera mótið eins glæsilegt og raun bar vitni. Það er ljóst að án þeirra yrði mótið ekki hið sama.
Veitt voru verðlaun fyrir besta skor karla og kvenna og 3 efstu sætin í punktakeppni karla og kvenna. Auk þess var fjöldi nándarverðlauna og að lokum var dregið úr skorkortum.
Þetta árið var bryddað upp á skemmtilegri nýjung, 19. holan, sem vakti mikla lukku og þóttist taka afar vel. Að loknum hefðbundnum 18 holu hring fóru keppendur á æfingagrínið við golfskálann og reyndu að vippa í afmarkaðan hring á gríninu og fóru þannig í pott sem dregið var úr í verðlaunaafhendingu.
Sigurvegararar í höggleik karla og kvenna hljóta sæmdarheitið Golfari FH. Þetta árið urðu hlutskörpust þau Margrét Theódórsdóttir á 82 höggum og Sigurjón Sigmundsson á 71 höggi eða pari vallarins sem er auðvitað frábært skor og með því besta sem sést hefur á golfmóti FH.
Allir sigurvegarar fengu vegleg verðlaun í boði styrktaraðila mótsins auk þess Golfarar FH fengu veglegan farandbikar og minni eignarbikar.
Önnur verðlaun skiptust þannig:
Punktar – konur
1. Hrafnhildur Þórarinsdóttir 37 pkt.
2. Erla G. Jónsdóttir 36 pkt.
3. Agla Hreiðarsdóttir 35 pkt.
Punktar – karlar
1. Sigurjón Sigmundsson 41 pkt.
2. Börn Kristinn Björnsson 38 pkt.
3. Hörður Þorsteinsson 38 pkt.
Nándarverðlaun
4. braut Örn Rúnar Magnússon, 0,74 m.
6. braut Kristján Arason, 1,44 m.
10. braut Adolf Adolfsson, 0,33 m.
16. braut Jónas Sigurðsson, 1,02 m.
Lengsta teighögg
13. braut Örn Rúnar Magnússon
19. holan Sveinn Jónsson