Meistaraflokkur kvenna – skrifað undir við lykilleikmenn
Undirbúningur fyrir næsta tímabil hjá meistaraflokki kvenna í knattspyrnu gengur vel. Fyrir stuttu gekk öflugur bandarískur markvörður, Jeanette Williams, til liðs við FH og mun spila með liðinu næsta sumar. Á síðustu dögum hefur kvennaráð knd. FH gengið frá samningum við leikmenn liðsins. Í síðustu viku var gengið frá samningum við nokkra af reynslumestu leikmönnum liðsins. Þær sem skrifuðu undir samning þá voru Margrét Sif Magnúsdóttir, Halla Marinósdóttir, Bryndís Hrönn Kristinsdóttir, Viktoría Valdís Viðarsdóttir, Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir, Guðrún Björg Eggertsdóttir og Lilja Gunnarsdóttir. Allar komu þær mikið við sögu á síðasta tímabili þegar FH endurheimti sæti sitt í Pepsí deildinni og eru með reynslumestu leikmönnum liðsins.
Halla Marinósdóttir, sem var fyrirliði liðsins á síðasta keppnistímabili, segir að það leggist vel í sig að spila í Pepsideildinni á nýjan leik. „Já, þetta leggst bara vel í mig. Mannskapurinn er búinn að æfa vel svo ég á von á því að við munum mæta vel undirbúnar til leiks í sumar“.
Margrét Sif Magnúsdóttir, sem var markhæsti leikmaður liðsins og var valin besti leikmaður síðasta tímabils, tók í sama streng. „Mér sýnist á öllu að liðið muni koma mjög vel stemmt til leiks. Það er mikill hugur í mannskapnum og við ætlum okkur svo sannarlega að gera allt í okkar valdi til þess að tryggja stöðu FH í deild þerra bestu“.
Það er ánægjuefni fyrir FH að þessir öflugu leikmenn séu búnir að skrifa undir hjá félaginu. En undirbúningi fyrir næsta tímabil er hvergi nærri lokið og er stefnan sú hjá kvennaráði að styrkja liðið enn frekar fyrir þau átök sem framundan eru í Pepsi-deildinni í sumar.
Viktoría Valdís og Árni, formaður kvennaráðs, að lokinni undirskrift
Sigmundína og Árni handsala samninginn