Upphitun: FH - Valur, 11. september 2016
Árni Freyr Helgason skrifar:
Þá er loks komið að því! Handboltinn hefst nú um helgina að loknu sumarleyfi, og er byrjunin ekki af verri endanum. Strákarnir okkar taka á móti bikarmeisturum Vals á sunnudag og má þar búast við hörkuleik, enda Valsmenn fyrirfram taldir vera eitt sterkasta lið deildarinnar. Lið FH ætlar sér stóra hluti í vetur og eru strákarnir staðráðnir í að byrja nýtt tímabil á góðum nótum.
Valur
Lið Vals hefur tekið nokkrum stakkaskiptum frá síðasta tímabili. Í atvinnumennsku héldu þrír af bestu leikmönnum deildarinnar; frændurnir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson auk Ómars Inga Magnússonar, og þá skipti Daníel Þór Ingason yfir til Hauka. Þá skipti önnur öflug skytta, Elvar Friðriksson, yfir til Gróttu.
Valsmenn hafa hins vegar fyllt vel í þau skörð og fengið til sín öfluga leikmenn. Leikstjórnandinn Anton Rúnarsson er kominn aftur heim úr atvinnumennsku, en hann hefur leikið í Þýskalandi og Danmörku síðustu ár. Þá kom skyttan efnilega Ólafur Ægir Ólafsson frá Fram, og Atli Karl Bachmann frá Víkingi. Þar að auki sóttu Valsarar rétthenda skyttu, Josip Juric Grgic að nafni, frá Króatíu. Sá sýndi góð tilþrif í Hafnarfjarðarmótinu, og gæti reynst drjúgur í vetur.
Þar fyrir utan er lið Vals afar vel skipað. Í markinu stendur einn besti markvörður deildarinnar, Hlynur Morthens, sem getur unnið leiki upp á eigin spýtur sé hann í stuði. Bræðurnir Orri Páll og og Ýmir Örn Gíslasynir, sem að vísu verður í banni í leiknum á sunnudag, eru sterkir leikmenn með Valshjörtu og þá eru hornin vel mönnuð af þeim Vigni Stefánssyni vinstra megin og Sveini Aroni Sveinssyni hægra megin. Hér er aðeins stiklað á stóru, en í hóp Vals eru margir góðir leikmenn sem komið geta inn og skipt sköpum.
Innbyrðis viðureignir
Í ljósi þess að hér er um fyrsta leik tímabilsins að ræða, er auðvitað ekki hægt að vísa til fyrri viðureignar í deildarleik líkt og gert verður í upphitunum síðar í vetur. Liðin mættust hins vegar í Hafnarfjarðarmótinu í ágúst, og fóru Valsmenn þar með sigur af hólmi eftir kaflaskiptan leik. Lokatölur voru 25-26, eftir að FH-ingar höfðu leitt í hálfleik (13-11) og raunar lengst af í leiknum.
FH
Nokkrir leikmenn koma til með að leika sína fyrstu deildarleiki í fagurhvítu treyjunni á sunnudag.
Arnar Freyr Ársælsson, vinstri hornamaður, kom til okkar frá Fram, þar sem hann var einn af betri mönnum liðsins á síðasta tímabili. Hann var afar sigursæll með yngri flokka liðum Safamýrarfélagsins og þá hefur hann leikið með öllum yngri landsliðum Íslands. Hér er um mikinn feng að ræða, en Arnar er bæði góður kostur í vinstra horninu auk þess að vera afar sterkur og fjölhæfur varnarmaður.
Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður, kom einnig frá Fram en hann hóf sinn feril hjá HK. Þar er á ferð einn efnilegasti hægri hornamaður í Evrópu um þessar mundir, en hann var einmitt valinn í úrvalslið Evrópumóts U-21 árs landsliða sem fram fór í sumar. Gríðarlega hraður og lunkinn leikmaður, sem gaman verður að sjá leika listir sínar á fjölum Kaplakrika í vetur.
Jóhann Karl Reynisson, línumaður, kom til FH frá Danmörku, þar sem hann lék með Nordsjælland. Sá er FH-ingum góðkunnugur, enda lék hann með liðinu tímabilið 2012/2013. Jóhann, sem er frábær varnarmaður, kemur til með að leika mikilvægt hlutverk fyrir miðju varnarinnar í vetur auk þess að deila línustöðunni með Ágústi Birgissyni.
Birkir Fannar Bragason, markvörður, kemur til liðsins frá Selfossi en þar tók hann þátt í umspilssigri um sæti í Olísdeildinni þennan veturinn. Birkir, sem er Selfyssingur að upplagi, er reynslumikill á milli stanganna, en hann hefur meðal annars leikið í Noregi á undanförnum árum. Hann kemur til með að mynda sterkt markmannsteymi með þeim Ágústi Elí og Arnari.
Sjá mátti á Hafnarfjarðarmótinu og Opna Norðlenska æfingamótinu, sem fram fóru í haust, að lið FH hefur æft að krafti í sumar. Liðið virkaði vel saman stillt, varnarleikur gekk vel og sóknarleikurinn einnig. Holningin, í heild sinni, var ekki með haustbrag líkt og oft er. Það varð meðal annars til þess að strákarnir unnu Hafnarfjarðarmótið, sem verður að teljast gott veganesti fyrir tímabilið sem framundan er.
Það munar um endurkomu Ísaks Rafnssonar í lið FH, en hann var meiddur stóran hluta síðasta tímabils. Vart þarf að ítreka mikilvægi þess að fá Ísak til baka, enda frábær skytta og varnarmaður. Aftur á móti er Halldór Ingi Jónasson frá vegna meiðsla, og er það skarð fyrir skildi enda var Halldór mikilvægur hlekkur í FH-liðinu á síðasta tímabili. Að öðru leyti er FH-liðið, sem leitt verður út á gólf á sunnudag af nýskipuðum fyrirliða Ásbirni Friðrikssyni, klárt í slaginn.
Leikur FH og Vals hefst kl. 19:15 á sunnudag, strax að loknum leik FH og Breiðabliks í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sem hefst kl. 17:00. Báðir leikir eru hluti af LUV-deginum, sem haldinn er árlega í minningu Hermanns Fannars Valgarðssonar heitins. Frítt er inn á handboltaleikinn og viljum við hvetja alla FH-inga til að mæta, gera sér glaðan dag og sýna strákunum okkar, í báðum boltagreinum, stuðning í verki. Byrjum þetta tímabil með látum, kæru FH-ingar! Fyllum Krikann!
Við erum FH!
Mynd: Vísir.is