LÖG FH
1. gr. Heiti félagsins.
Félagið heitir Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH).
2. gr. Varnarþing og heimili.
Varnarþing félagsins er í Hafnarfirði. Heimili þess er í Kaplakrika.
3. gr. Tilgangur og markmið.
FH er íþróttafélag. Markmið þess er að vera í fremstu röð í íþrótta- og uppeldisstarfi. Ávallt skal stefnt að því að ná framúrskarandi árangri í þeim íþróttagreinum sem stundaðar eru í félaginu og kappkosta að tryggja iðkendum þess eins góða aðstöðu, þjálfun og umgjörð og völ er á. Í félaginu skal starfrækt öflugt barna- og unglingastarf með það að leiðarljósi að styrkja og efla iðkendur til framtíðar.
Leggja skal áherslu á að skapa öllum félagsmönnum vettvang til að leggja sitt af mörkum fyrir félagið og taka þátt í starfi þess eins og kostur er.
Tryggja skal sem jafnastan hlut kynja við allar kosningar í félaginu.
4. gr. Félagsmenn.
Félagar í FH eru allir iðkendur félagsins og þeir sem starfa fyrir og styðja það.
5. gr. Aðalfundur félagsins.
Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar.
Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Til hans skal boðað með auglýsingu á heimasíðu félagsins sem birta skal með minnst tveggja vikna fyrirvara.
Endurskoðaður ársreikningur félagsins skal liggja fyrir á skrifstofu félagsins minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.
Aðalfundurinn telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.
6. gr. Dagskrá aðalfundar.
Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera sem hér segir:
1. Formaður félagsins setur fundinn.
2. Lögð fram niðurstaða kjörbréfanefndar.
3. a) Kosning fundarstjóra.
b) Kosning fundarritara .
4. Formaður félagsins leggur fram skýrslu aðalstjórnar um starfsemi og framkvæmdir á liðnu starfsári.
5. a) Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar aðalstjórnar og félagsins í heild fyrir liðið starfsár.
b) Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
6. Lagabreytingar sbr. 8. gr.
7. Kosning formanns.
8. Kosning fjögurra stjórnarmanna til tveggja ára.
9. Kosning löggilts endurskoðenda fyrir aðalstjórn og deildir félagsins.
10. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar fyrir næsta aðalfund auk þriggja varamanna.
11. Önnur mál.
7. gr. Aukaaðalfundur.
Aukaaðalfund félagsins má halda ef aðalstjórn telur þörf á því eða ef fjórðungur atkvæðisbærra fulltrúa á síðasta aðalfundi félagsins óskar eftir því. Beiðni um aukaaðalfund skal beina til aðalstjórnar og skal fylgja henni greinargerð um fundarefni.
Til aukaaðalfundar skal boðað með þeim hætti sem greinir í 5. gr. laganna. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur. Lagabreytingar og stjórnarkosning skal þó ekki fara fram á aukaaðalfundi.
8. gr. Kosningar á aðalfundi.
Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála nema þegar um er að ræða tillögur til breytinga á lögum félagsins en þær verða að samþykkjast af 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.
Kosningar skulu vera skriflegar, ef þess er óskað. Séu atkvæðin jöfn við stjórnarkjör skal kosning endurtekin. Verði atkvæði þá enn jöfn skal hlutkesti ráða.
9. gr. Kjörgengi og atkvæðisréttur. Fulltrúafjöldi deilda.
Allir félagsmenn 18 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnarsetu, tillögurétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins. Hið sama á við um aukaaðalfund félagsins.
Atkvæðisrétt hafa eftirtaldir aðilar:
a) Aðalstjórnarmenn.
b) Stjórnarmenn deilda.
c) Heiðursfélagar.
d) Fulltrúar kjörnir á aðalfundum deilda. Fjöldi kjörinna fulltrúa hverrar starfandi deildar ræðst af fjölda iðkenda hennar þann 1. desember næst á undan aðalfundi eins og hann er skráður hjá aðalstjórn þannig að einn fulltrúi er kjörinn fyrir hverja 50 iðkendur.
Iðkendur samkvæmt framansögðu eru þeir sem skráðir eru í yngri- og meistaraflokka félagsins svo og þeir sem greiða þátttökugjöld í barna- og unglingastarfi ásamt almennum iðkendum sem taka þátt í meistaramótum á vegum sérsambanda ÍSÍ. Iðkendur teljast eingöngu þeir sem skráðir eru í skráningarkerfi félagsins hverju sinni, nú NÓRA-kerfið.
Viku fyrir boðaðan aðalfund skal hver deild afhenda kjörbréfanefnd lista með nöfnum þeirra fulltrúa deildarinnar sem sitja eiga fundinn fyrir hennar hönd.
Hafi deild ekki haldið löglegan aðalfund á réttum tíma eða skilað ársskýrslu og endurskoðuðum reikningum missa allir fulltrúar viðkomandi deildar atkvæðisrétt á aðalfundi.
Enginn fulltrúi má fara með meira en eitt atkvæði á aðalfundi félagsins.
Heildarfjöldi fulltrúa einstakra deilda á aðalfundi má aldrei vera fleiri en 40% af atkvæðisbærum fulltrúum.
10. gr. Aðalstjórn- kosning-stjórnarfundir.
Aðalstjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Hana skipa átta menn auk formanns. Á hverjum aðalfundi skulu kosnir fjórir stjórnarmenn til tveggja ára í senn, en formaður skal kosinn sérstaklega á hverjum fundi til eins árs.
Framboði til stjórnar skal skila til aðalstjórnar (formanns eða framkvæmdastjóra) eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir boðaðan aðalfund sem birta skal á heimasíðu félagsins þá þegar.
Formaður boðar til funda í aðalstjórn þegar hann telur það nauðsynlegt eða ef einn stjórnarmaður óskar eftir fundi. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála í aðalstjórn. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fundinn.
11. gr. Hlutverk aðalstjórnar.
Aðalstjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir eigum félagsins og markar stefnu þess í aðalatriðum.
Aðalstjórn er heimilt að taka þátt í rekstri og eiga eignarhluti í hlutafélögum ein sér eða með einstökum deildum félagsins
Aðalstjórn skal tryggja að gerð séu ársfjórðungsuppgjör aðalstjórnar og allra deilda innan mánaðar frá lokum hvers ársfjórðungs. Gerð ársreikninga aðalstjórnar og deilda skal lokið eigi síðar en í 15. febrúar.
Vandaðar rekstraráætlanir aðalstjórnar og deilda skulu liggja fyrir í lok nóvember ár hvert og þær yfirfarnar af aðalstjórn í desember.
Aðalstjórn er heimilt að skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum á hennar vegum og skulu þær leggja allar meiriháttar tillögur og ákvarðanir fyrir aðalstjórn félagsins til samþykktar.
Aðalstjórn veitir viðurkenningu fyrir íþróttaárangur eða störf í þágu félagsins eða íþróttahreyfingarinnar samkvæmt sérstakri reglugerð, sem samþykkt er á aðalfundi félagsins (sjá fylgiskjal 1, með lögum þessum).
Aðalstjórn skal tryggja að jafnréttisstefna sé í gildi fyrir félagið og að hún sé virt.
12. gr. Framkvæmdastjóri.
Aðalstjórn ræður sér framkvæmdastjóra til þess að annast daglegan rekstur íþróttahúsa og svæðis félagsins auk annarra verkefna sem aðalstjórn felur honum.
Aðalstjórn setur framkvæmdastjóra frekari starfsreglur og ábyrgðarsvið.
13. gr. Félagsdeildir.
Hver deild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn aðskilinn fjárhag og kennitölu. Hver deild skal hafa tekjur af æfingagjöldum, stuðningsmönnum, styrktaraðilum, aðgangseyri, og öðrum fjáröflunum, sem hún tekur sér fyrir hendur.
Innan hverrar deildar skal starfa unglingaráð sem deildastjórn tilnefnir. Unglingaráðið annast skipulag og fjármál yngri flokka starfs innan deildarinnar i umboði deildarstjórnar. Fjárhagur unglingaráða skal aðskilinn frá fjármálum meistaraflokka.
Í lok hvers starfsárs skal gera útdrátt um hið markverðasta í starfsemi deildarinnar, sem síðan skal tekið inn í sameiginlega ársskýrslu félagsins.
Óheimilt er félagsdeildum að veðsetja eignir félagsins nema með samþykki aðalstjórnar.
Fjárhagslegar ákvarðanir deilda umfram samþykktar áætlanir ber að leggja fyrir aðalstjórn til ákvörðunar.
14. gr. Aðalfundir deilda félagsins.
Aðalfundir deilda félagsins skulu haldnir eigi síðar en 1. mars ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með auglýsingu á heimasíðu félagsins sem birta skal með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur deildar er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Allir félagsmenn 18 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnarsetu og atkvæðisrétt á aðalfundum deilda.
Framboði til stjórnar skal skila til deildarstjórnar eða skrifstofu aðalstjórnar (framkvæmdastjóra aðalstjórnar) eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir boðaðan aðalfund deildar og birta skal á heimasíðu félagsins þá þegar.
Ósk um að verða kjörinn fulltrúi deildar á aðalfundi félagsins skal skila til deildarstjórnar eða skrifstofu aðalstjórnar (framkvæmdastjóra aðalstjórnar) eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir boðaðan aðalfund deildar.
15. gr. Dagskrá á aðalfundum félagsdeilda.
Dagskrá aðalfunda deilda félagsins skal vera sem hér segir:
1. Formaður deildar setur fundinn.
2. Kosning fundarstjóra.
3. Kosning fundarritara.
4. Formaður deildar leggur fram skýrslu deildarstjórnar um starfsemina á liðnu starfsári.
5. Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar deildarinnar fyrir liðið starfsár.
6. a) Kosning formanns.
b) Kosning fjögurra stjórnarmanna, tveggja til eins árs og tveggja stjórnarmanna til tveggja ára.
c) Kosning fulltrúa á aðalfund félagsins samkvæmt 9. gr. og allt að fimm til vara.
7. Önnur mál.
16. gr. Kosningar á aðalfundum félagsdeilda.
Á aðalfundi deilda ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála. Kosningar skulu vera skriflegar ef þess er óskað. Séu atkvæðin jöfn skal kosning endurtekin. Verði atkvæði þá enn jöfn skal hlutkesti ráða.
17. gr. Aðalfundur félagsdeildar ekki haldinn á lögákveðnum tíma.
Vanræki deild að halda aðalfund á lögákveðnum tíma, skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.
18. gr. Stjórnir félagsdeilda. Hlutverk. Aðkoma aðalstjórnar að málefnum félagsdeildar.
Stjórn hverrar deildar félagsins með fleiri en 100 iðkendum skal skipuð átta mönnum auk formanns. Stjórn deilda með 100 iðkendum eða færri skal skipuð fjórum mönnum auk formanns.
Deildarstjórn ákveður verkaskiptingu stjórnarmanna. Deildarstjórnir skulu vinna að eflingu félagsins hver á sínu sviði. Deildarstjórn skipar fulltrúa félagsins á ársþing sérsambanda ÍSÍ.
Deildarstjórn ber ábyrgð á fjármálum deildarinnar, gerð rekstraráætlana og ársfjórðungs- og ársuppgjöra.
Þegar ársfjórðungsuppgjör liggja fyrir skal halda fund forsvarsmanna deildar og aðalstjórnar um málefni deildarinnar, s.s. stöðu fjármála, aðstöðumál ofl.
Aðalstjórn hefur á hverjum tíma aðgang að bókhaldi og uppgjörum deilda. Aðalstjórn getur tilnefnt sérstakan trúnaðarmann sem kynnir sér fjárhag og stöðu deildar og kemur með tillögur til úrbóta ef þörf krefur. Hann getur lagt til að aðalstjórn yfirtaki fjármálastjórn deildar, ef tillögum til úrbóta er ekki sinnt svo fljótt, sem verða má.
Aðalstjórn skal öll vera samþykk yfirtöku fjármála deildar.
Stjórn félagsdeildar getur hvenær sem er óskað eftir því að aðalstjórn taki til umfjöllunar einstök mál er varða viðkomandi deild. Ber aðalstjórn að verða við slíkri beiðni þá þegar. Beiðnin skal send skriflega til aðalstjórnar þar sem gerð er grein fyrir sjónarmiðum deildarinnar og hugsanlegri aðkomu aðalstjórnar að málinu. Fulltrúa viðkomandi deildar skal heimilt að sitja fund aðalstjórnar þegar um málið er fjallað og fylgja því eftir með rökstuðningi ef þurfa þykir.
19. gr. Stofnun nýrrar félagsdeildar.
Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrra deilda innan félagsins skal aðalstjórn félagsins taka þær til athugunar ef aðalstjórn samþykkir stofnun nýrrar deildar skal aðalstjórn leggja samþykktina fyrir næsta aðalfund félagsins. Samþykki aðalfundurinn stofnun nýrrar deildar skal aðalstjórn félagsins sjá um undirbúning að stofnfundi sem fara skal fram samkvæmt ákvæðum laga þessara um aðalfundi deilda.
20. gr. Reikningsár.
Reikningsár félagsins skal miðast við almanaksárið.
21. gr. Eignir félagsins.
Eignir hverrar deildar, bæði lausafé og fastafjármunir eru sameign félagsins. Hætti deild starfsemi skal stjórn deildarinnar afhenda aðalstjórn eignir hennar. Taki deildin ekki upp starfsemi á ný innan 5 ára renna eignir hennar í aðalsjóð félagsins.
Verðlaunagripir, minjagripir og verðmæt skjöl skulu vera í vörslu aðalstjórnar. Stjórn deildar skal afhenda aðalstjórn alla verðlaunagripi jafn skjótt og til þeirra er unnið.
Til verðlaunagripa teljast ekki persónulegar viðurkenningar til íþróttamanna nema þær sem færðar eru félaginu að gjöf frá viðkomandi íþróttamanni eða aðstandendum hans.
Eignir félagsins skulu vera vátryggðar. Aðalstjórn annast eignatryggingar félagsins.
22. gr. Félagsslit.
Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi þess og þá með samþykki 4/5 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.
23. gr. Búningur og merki félagsins.
Búningur félagsins skal vera svartar buxur með hvítum röndum, hvítur bolur og hvítir sokkar. Telji deild nauðsynlegt að víkja frá þessu skal hún áður leita samþykkis aðalstjórnar.
Varabúningar skulu valdir í samræmi við félagsliti ef kostur er en sé þess ekki kostur skal félagsdeild leita samþykkis aðalstjórnar. Hið sama gildir um hvers konar hlífðarfatnað sem notaður er við æfingar og keppni á vegum félagsins.
Merki félagsins er: (FH merkið)
Heimilt er að nota upprunalega FH stafi við sérstök tilefni.
24. gr. Lagabreytingar.
Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins.
Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en sjö dögum fyrir aðalfund félagsins.
Tillögur til breytinga á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en 1. febrúar.
25. gr. Gildistaka.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi FH 30.mars 2016 og öðlast þegar gildi, jafnframt eru úr gildi felld öll eldri lög félagsins.
Ákvæði til bráðabirgða.
Að lögum þessum samþykktum á aðalfundi fer um kosningu stjórnar og kjörbréfanefndar samkvæmt þeim. Kjósa skal fjóra stjórnarmenn til eins árs og fjóra til tveggja ára.
Á fyrsta aðalfundi deildar eftir samþykkt laga þessara skal kjósa fjóra stjórnarmenn til eins árs og fjóra til tveggja ára.